Úr reglugerð um upplýsingamiðstöð

Söfnun og miðlun upplýsinga

Í reglugerð nr. 1244/2019 er að finna reglur um upplýsingamiðstöð og starfsemi hennar.

19. gr.

Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. (ABÍ) er upplýsingamiðstöð hér á landi.

ABÍ sem upplýsingamiðstöð skal safna og miðla upplýsingum um:

  1. skráningarmerki ökutækja sem eru að öllu jöfnu staðsett hér á landi,
  2. númer vátryggingarskírteina sem taka til ábyrgðar á tjóni af notkun ökutækja, sem eru að öllu jöfnu staðsett hér á landi, og þann dag sem vátryggingarvernd fellur niður ef gildistíma vátryggingarinnar er lokið,
  3. þau vátryggingafélög, sem ábyrgðartryggja ökutæki, sem eru að öllu jöfnu staðsett hér á landi, og þá tjónsuppgjörsfulltrúa, sem vátryggingafélög hafa tilnefnt samkvæmt lögum um vátrygg­ingastarfsemi, nr. 100/2016, og sem tilkynnt er um til ABÍ skv. 3. mgr.,
  4. ökutæki sem undanþegin eru ábyrgðartryggingarskyldu og hvaða stjórnvald ábyrgist greiðslu bóta fyrir tjón sem hlýst af þeim.

ABÍ skal aðstoða tjónþola, sbr. 20. gr., við að afla þeirra upplýsinga sem taldar eru í 2. mgr.

Upplýsingar samkvæmt a-d-liðum 2. mgr., skal geyma í sjö ár frá afskráningu ökutækis eða lokum vátryggingarsamnings.

ABÍ getur einnig safnað og miðlað öðrum upplýsingum, sem eru nauðsynlegar til afgreiðslu tjóna­máls svo sem upplýsingum um:

  1. skráningarmerki ökutækja sem eiga þátt í umferðaróhappi,
  2. hvernig vátryggingu ökutækis er háttað,
  3. nöfn, heimilisföng og símanúmer þeirra aðila sem eiga þátt í umferðaróhappi,
  4. tjónsstað og aðdraganda tjónsatviks samkvæmt lögregluskýrslu eða tjónstilkynningu.

Komi fram sérstök ósk frá tjónþola skv. 20. gr. um upplýsingar sem eru nauðsynlegar til afgreiðslu tjónamáls skal ABÍ aðstoða við útvegun þeirra, eftir atvikum á rafrænu formi.

Vátryggingafélög, sem samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, hafa starfs­leyfi til rekstrar ábyrgðartrygginga ökutækja, skulu veita upplýsingamiðstöðvum í aðildarríkjum upplýs­ingar um nafn og heimilisfang tjónsuppgjörsfulltrúa sem er tilnefndur samkvæmt sömu lögum.

20. gr.

Upplýsingamiðstöð. Upplýsingar til tjónþola.

Tjónþoli, sem er búsettur hér á landi, á í allt að sjö ár frá tjónsatviki rétt á að fá tafarlaust eftir­taldar upplýsingar hjá ABÍ ef ökutæki tjónvalds er vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í aðildarríki og tjónsatvik varð í aðildarríki eða í öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið:

  1. nafn og heimilisfang vátryggingafélags,
  2. númer vátryggingarskírteinis,
  3. nafn og heimilisfang tjónsuppgjörsfulltrúans sem vátryggingafélag hefur tilnefnt hér á landi,
  4. stjórnvald sem ber ábyrgð á greiðslu bóta ef tjóni er valdið af ökutæki sem er undanþegið vátryggingarskyldu.

Tjónþoli, sem er búsettur í öðru aðildarríki, á einnig, í allt að sjö ár frá tjónsatviki, rétt á að fá tafarlaust upplýsingar þær, sem greinir í 1. mgr., ef tjónsatvikið varð hér á landi og ökutæki tjónvalds er vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í öðru aðildarríki.

ABÍ skal hafa samvinnu við upplýsingamiðstöðvar annarra aðildarríkja.

ABÍ skal láta tjónþola í té nafn og heimilisfang eiganda ökutækis eða skráðs umráðamanns, ef tjónþoli hefur lögmæta hagsmuni af því að fá þessar upplýsingar.

ABÍ skal láta tjónþola í té nafn þess stjórnvalds, sem ábyrgist greiðslu bóta vegna tjóns af völdum ökutækja sem undanþegin eru skyldu til ábyrgðartryggingar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica