Meðferð ágreiningsmála

Ágreiningur getur risið milli annars vegar vátryggingafélaga og hins vegar þeirra sem telja sig eiga rétt til vátryggingarbóta. Hægt er að skjóta slíkum ágreiningi til almennra dómstóla. Sú leið er þó yfirleitt bæði tímafrek og kostnaðarsöm og því oft ekki fýsileg fyrir neytendur. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og aðildarfélög þess, í samstarfi við stjórnvöld og samtök neytenda, hafa því stofnað tjónanefnd vátryggingafélaga sem ætlað er á faglegan og skjótvirkan hátt að leysa úr ágreiningi við vátryggingafélög án milligöngu dómstóla. Í hnotskurn er ferlið þetta:

  1. Vátryggingafélag

Takist ekki að ná niðurstöðu um bótaskyldu, sök eða sakarskiptingu við starfsmenn vátryggingafélagsins er unnt að fara þess á leit að félagið sjálft leggi málið fyrir tjónanefnd vátryggingarfélaga.

  1. Tjónanefnd vátryggingarfélaga

Tjónanefndin er skipuð fulltrúum sem tilnefndir eru af aðildarfélögum SFF. Aðilar máls sem eru ósáttir við afgreiðslu félags á kröfu um vátryggingarbætur, geta óskað eftir því að félagið leggi málið fyrir nefndina. Slíkt málskot er tjónþola að kostnaðarlausu.

  1. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum

Tjónþolum gefst einnig kostur á að á að skjóta ágreiningi um afstöðu félags til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum innan árs frá tilkynningu félagsins um að það hafni kröfu um bætur í heild eða að hluta. 

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum fjallar um ágreining um bótaskyldu, þar með talið sök og sakarskiptingu milli neytenda og vátryggingafélags. Sá aðili sem skýtur máli sínu til nefndarinnar nefnist málskotsaðili. Málskotsaðili getur verið vátryggingartaki, vátryggður, þar á meðal meðvátryggður, rétthafi bóta, tjónþoli og hver sá annar er telur sig eiga rétt til bóta úr vátryggingu eða á annarra hagsmuna að gæta vegna vátryggingarsamnings samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga. 

Fylla þarf út sérstakt málskotseyðublað sem hægt er að finna á heimasíðu nefndarinnar. Eyðublaðinu og fylgigögnum ber að skila til nefndarinnar ásamt málskotsgjaldi.

Málskotsaðili greiðir eftirfarandi málskotsgjald um leið og málskot berst úrskurðarnefnd:

a. einstaklingur utan atvinnurekstrar, kr. 10.000.

b. einstaklingur í atvinnurekstri, kr. 25.000.

c. lögaðili, kr. 50.000.

Gjaldið fæst endurgreitt falli mál að hluta til eða öllu leyti málskotsaðila í vil.

Athygli er vakin á því að réttur manna til að skjóta ágreiningsmálum til almennra dómstóla skerðist ekki þótt málinu hafi verið skotið til tjónanefndar og/eða úrskurðarnefndar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica