Hvað er ABÍ

Upphafið

ABÍ var stofnað í apríl 1970, en all löngu fyrr hófu íslensku bifreiðatryggingafélögin að kanna hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til að komast inn í hið svo kallaða Græna korts samstarf sem til var stofnað af ýmsum Evrópuríkjum í ársbyrjun 1953.

Tilgangur:

Í byrjun snérist starfsemi ABÍ einvörðungu um ábyrgð á akstri og tjónum erlendra ökutækja hér á landi og akstri íslenskra ökutækja erlendis sem og útgáfu alþjóðlegra vátryggingarkorta fyrir ökutæki (svonefndra grænna korta). Öll þessi starfsemi byggði á fjölþjóðlegum samningum, m.a. um rekstur svonefndra landsskrifstofa, á ensku National Bureaux. ABÍ var landsskrifstofan hér á landi og var það áréttað í íslenskri umferðar- og tollalöggjöf. Tilgangurinn var að auðvelda umferð milli Evrópuríkja og nokkurra ríkja utan Evrópu, sem hafa mikil samskipti við einstök Evrópuríki. Þetta fjölþjóðlega samstarf er nú rekið undir heitinu COB.

Lagafyrimæli:

Eftir því sem samstarf Evrópuríkja varð nánara, einkum innan Evrópusambandsins, voru mótaðar margvíslegar reglur sem höfðu í för með sér ný verkefni og kvaðir á hendur bifreiðatryggingafélögum sem störfuðu í þessum löndum. Var markmiðið að tryggja stöðu tjónþola sem best. Í flestum ríkjum voru þessi nýju verkefni falin landsskrifstofunum, rétt eins og raunin varð með löggjöf hér á landi varðandi ABÍ. Þannig starfar ABÍ í dag bæði sem tjónsuppgjörsmiðstöð og upplýsingamiðstöð fyrir Ísland.Þetta vefsvæði byggir á Eplica