Meðferð ágreiningsmála

Ágreiningur getur risið milli annars vegar vátryggingafélaga og hins vegar þeirra, sem telja sig eiga rétt til vátryggingarbóta. Ætíð er unnt að skjóta slíkum ágreiningi til almennra dómstóla. Sú leið er þó iðulega bæði tímafrek og kostnaðarsöm, og af þeim ástæðum oft ekki fýsileg fyrir neytendur. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og aðildarfélög þess, í samstarfi við stjórnvöld og samtök neytenda, hafa því á markvissan hátt byggt upp kerfi, sem ætlað er á faglegan hátt, en þó skjótvirkan og ódýran, að leysa úr ágreiningi við vátryggingafélög án milligöngu dómstóla. Í hnotskurn er ferlið þetta:

  1. Vátryggingafélag. Tjónadeild.

Takist ekki að ná niðurstöðu um bótaskyldu, sök eða sakarskiptingu við starfsmenn vátryggingafélagsins, oftast starfsmenn tjónadeildar, er unnt að fara þess á leit að félagið sjálft leggi málið fyrir Tjónanefnd vátryggingarfélaganna.

  1. Tjónanefnd vátryggingarfélaganna.

Hún er skipuð fulltrúum, sem tilnefndir eru af aðildarfélögum SFF. Er nefndin vistuð hjá SFF. Þeir aðilar máls, sem eru ósáttir við afgreiðslu félags á kröfu um vátryggingarbætur, geta óskað eftir því, að félagið leggi málið fyrir nefndina. Slíkt málskot er mönnum að kostnaðarlausu.

  1. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.

Tjónþolum gefst kostur á að á að skjóta ágreiningi um afstöðu félags til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum innan árs frá tilkynningu félagsins um að það hafni kröfu um bætur í heild eða að hluta. Sérstök athygli er vakin á því að sá sem á rétt til bóta glatar þeim rétti ef hann hefur ekki höfðað mál eða krafist meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr. VSL innan árs frá því að hann fékk skriflega tilkynningu um höfnunina.

Úrskurðarnefnd skipa þrír lögfræðingar, sem tilnefndir eru af viðskiptaráðuneytinu, Neytendasamtökunum og SFF. Fylla þarf út sérstakt eyðublað vegna málskots til úrskurðarnefndarinnar, sem fá má hjá vátryggingafélögunu, Fjármálaeftirlitinu eða Neytendasamtökunum. Hægt er að sækja málskotseyðublað á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins www.fme.is. Eyðublaðinu og fylgigögnum ber að skila til Fjármálaeftirlitsins ásamt málskotsgjaldi, nú að fjárhæð kr. 9.200. Gjaldið er endurgreitt verði niðurstaðan málskotsaðila í hag að öllu leyti eða hluta.

Árétta ber sérstaklega, að réttur manna til að skjóta ágreiningsmálum til almennra dómstóla skerðist ekki, þótt málinu hafi verið skotið til tjónanefndar og/eða úrskurðarnefndar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica