Samþykktir

Samþykktir ABÍ

1 gr.

Nafn samtakanna er Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi, skammstafað ABÍ (Á ensku International Motor Insurance in Iceland). Heimili og varnarþing samtakanna er í Reykjavík.


2 gr.

Aðilar að samtökum þessum eru eftirtalin vátryggingarfélög:

   Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

   Tryggingamiðstöðin hf.

   Vátryggingafélag Íslands hf.

   Vörður tryggingar hf.

Stjórn samtakanna getur samþykkt sem aðila önnur vátryggingarfélög, sem heimild hafa til að taka að sér lögmælta ábyrgðartryggingu vegna skráðra vélknúinna ökutækja, með þeim skilyrðum, sem samþykktir þessar og þær reglur, sem stjórn samtakanna kann að setja í þessu skyni, segja til um. Eignarhluti virkra samtakaaðila skal vera jafn. Með virkum aðilum er átt við þá vátryggjendur, er bjóða lögboðnar vátryggingar vegna vélknúinna ökutækja, sem hér á landi eru skráð. Vátryggingafélagi, sem er með starfsleyfi í greinaflokki 10, sbr. 10. tölulið 1. mgr. 21. gr. laga um vátryggingastarfsemi, sem býður ekki upp á ábyrgðartryggingar ökutækja hér á landi, skal veita aukaaðild að samtökunum. Stjórn samtakanna ákvarðar réttindi og skyldur aðildarfélaga með aukaaðild hverju sinni.


3 gr.

Tilgangur samtakanna er þessi:

Að ábyrgjast í samræmi við:

  1. grundvallarsamning milli landsskrifstofa vátryggingarfélaga um notkun alþjóðlegra vátryggingarkorta fyrir ökutæki, á ensku Uniform Agreement between Bureaux,

  2. marghliða ábyrgðarsamning milli landsskrifstofa vátryggingarfélaga, á ensku Multilateral Guarantee Agreement between National Insurers' Bureaux, og

  3. reglugerð um notkun erlendra ökutækja, að ökutæki, sem skráð er erlendis en er hér á landi notað um stundarsakir, sé vátryggt lögmæltri ábyrgðartryggingu, og annast uppgjör tjóna, sem þessi ökutæki kunna að valda hér á landi.

Að sjá samtakaaðilum fyrir alþjóðlegum vátryggingarkortum fyrir ökutæki („grænum kortum“) og ábyrgjast skuldbindingar vegna aksturs ökutækja erlendis í samræmi við grundvallarsamning milli landsskrifstofa vátryggingarfélaga um notkun alþjóðlegra vátryggingarkorta fyrir ökutæki.

Að ábyrgjast skuldbindingar samkvæmt marghliða ábyrgðarsamningi milli landsskrifstofa vátryggingarfélaga vegna aksturs ökutækja, sem skráð eru hér á landi, í þeim ríkjum, er aðild eiga að þeim samningi.

Að ábyrgjast og annast uppgjör tjóna af völdum óþekktra og óvátryggðra ökutækja í samræmi við reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar.

Að gegna hlutverki tjónsuppgjörsmiðstöðvar og upplýsingamiðstöðvar skv. umferðarlögum og reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar.

Að koma fram fyrir hönd samtakaaðilanna gagnvart stjórnvöldum og innlendum og erlendum aðilum í þeim málum, sem tengjast starfsemi samtakanna.


4 gr.

Hver aðili að samtökunum er skuldbundinn gagnvart þeim til að inna af höndum bætur, sem greiða ber samkvæmt þeim vátryggingarsamningnum, sem hann hefur gert og hér er um fjallað. Hafi samtökin greitt slíkar bætur fyrir einhvern samtakaaðila sinn, skal hann endurgreiða hið útreidda fé innan 15 daga frá því að samtökin hafa krafist greiðslu.

Fjárhæðir, sem samtökin greiða vegna tjóna af völdum óþekktra og óvátryggðra ökutækja eða af öðrum ástæðum en vegna vátryggingarsamninga, sem einstakir samningsaðilar hafa gert, skulu skiptast milli samtakaaðila og endurgreiðast af þeim í hlutfalli við iðgjaldatekjur (iðgjöld ársins) í lögboðnum ábyrgðartryggingum ökutækja. Miðað skal við næsta almanaksár fyrir tjónsatburð eða annað greiðslutilefni, þar sem fyrir liggi upplýsingar um iðgjaldatekjur aðila. Fyrirframgreiðslu má á sama hátt krefja hjá samtakaaðilum, hafi samtökin ekki nægt fé í sjóði.

Hver samtakaaðili ber ótakmarkaða sjálfskuldarábyrgð á endurkröfum samtakanna á hendur þriðja aðila, og hver samtakaaðili ber ótakmarkaða sjálfskuldarábyrgð á endurkröfum samtakanna á hendur einstökum samtakaaðilum. Hafi reynt á sjálfskuldarábyrgð samtakaaðili skal uppgjör þeirra á milli fara fram í hlutfalli við iðgjaldatekjur, sbr. 2. mgr. þessarar greinar.


5 gr.

Hver samtakaaðili getur sagt sig úr samtökunum með sex mánaða uppsagnarfresti miðað við áramót. Uppsögn skal tilkynna stjórn samtakanna með ábyrgðarbréfi.

Missi aðili að samtökunum rétt til að selja lögboðnar ábyrgðartryggingar vélknúinna ökutækja, skal hann þegar strikaður út af félagaskrá og missir þá um leið rétt til að taka þátt í starfsemi samtakanna.

Hverjum þeim, sem eigi stendur nákvæmlega í skilum um greiðslur allar samkvæmt samþykktum þessum, skal þegar vikið úr samtökunum. Við lok aðildar að samtökunum skal stjórn samtakanna gera upp fjárskipti við viðkomandi aðila innan 12 mánaða frá gildistöku uppsagnar, og endurgreiða innistæður hans og tryggingar, er hann kann að hafa sett, enda sé eigi þörf á að halda fénu eða tryggingunum lengur vegna skuldbindinga, sem samtökin bera ábyrgð á.


6 gr.

Aðalfund samtakanna skal halda fyrir 15. júní ár hvert. Skal til fundar boða á sannanlegan hátt með 7 daga fyrirvara og samtakaðilum send dagskrá.

Á aðalfundi skal taka fyrir þessi mál:

  1. Skýrsla stjórnar um starfsemina á síðasta ári.

  2. Reikningar samtakanna fyrir síðastliðið ár, endurskoðaðir af kjörnum endurskoðendum.

  3. Kosning stjórnar samtakanna, sem fara skal með stjórn til næsta aðalfundar.

  4. Kosning eins endurskoðanda og eins til vara, sem báðir skulu vera löggiltir og ekki fastir starfsmenn samtakaaðila.

  5. Ákvörðun um fjárframlög af hendi samtakaaðila fyrir yfirstandandi fjárhagsár.

  6. Önnur mál.

Hver samtakaaðili hefur eitt atkvæði á fundum samtakanna.


7 gr.

Aukafundi skal halda, þegar stjórn samtakanna telur þess þörf og ef 1/3 hluti samtakaaðila krefst þess skriflega. Slíkan fund skal halda innan 7 daga frá því að krafa kom fram um það.


8 gr.

Stjórn samtakanna skipa fjórir menn.

Stjórnin kýs sér sjálf formann, og skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Stjórnin hefur yfirumsjón með rekstri samtakanna, og má hún ráða fyrir þau sérstakan framkvæmdastjóra, sem hafi með höndum daglegan rekstur, og veita honum venjulegt prókúruumboð.


9 gr.

Fjárhagsár samtakanna er almanaksárið.

Heimilt er aðalfundi að ákveða, að samtakaaðilum skuli greiddur út hluti af hagnaði, og skal hver samtakaaðili fá jafnan hagnaðarhlut.


10 gr.

Samþykktum þessum má breyta á aðalfundi eða aukafundi, sem boðaður er á sama hátt og aðalfundur. Geta skal þess í fundarboði, ef tillögur koma fram um breytingar á samþykktum. Breytingar verða því aðeins gildar, að þær hljóti 2/3 hluta gildra atkvæða á fundinum.


11 gr.

Verði samtök þessi lögð niður, skal skipta eignum þeirra á milli samtakaaðilanna þannig, að hver beri jafnt úr býtum.


12 gr.

Rísi ágreiningur milli samtakaaðila innbyrðis vegna skipta þeirra við samtökin, eða milli samtakaaðila og samtakanna, má skjóta málum til gerðardóms að kröfu hvers aðila um sig. Gerðardómurinn skal skipaður þremur mönnum. Fara skal þess á leit, að dómstjóri við héraðsdóm Reykjavíkur skipi gerðardómsmennina, og ákveði jafnframt, hver skuli vera formaður gerðardómsins. Gerðardómurinn ákveður sjálfur laun sín og málskostnað, og hver skuli bera þann kostnað.Þetta vefsvæði byggir á Eplica